Þakkir til allra sem samglöddust okkar!

Í vikunni sem er að líða héldu börn og starfsfólk upp á að 20 ár (í fyrrahaust) var síðan leikskólinn Tröllaborg varð til. Árið 2003 sameinuðust allir leikskólarnir þrír hér austan Vatna; Bangsabær í Fljótum, Barnaborg á Hofsósi og Brúsabær á Hólum. Tröllaborg var rekin á þremur starfsstöðvum til vors 2014 þegar Bangsabær lokaði. Anna Árnína Stefánsdóttir var ráðin leikskólastjóri nýs leikskóla og gengdi hún þeirri stöðu til ársins 2020. Við sameiningu leikskólanna austan Vatna hannaði Anna Árnína merki fyrir Tröllaborg sem átti að sýna hvaðan sameinaður leikskóli var búinn til úr. Tekinn var hluti úr nafni hverrar deildar og merkið gert úr því. Húsið stendur fyrir heinni hlutann af orðinu Barnaborg, bangsinn fyrir fyrri hlutann í Bangsabæ og brúsinn fyrir fyrrihlutann af Brúsabæ. 

Í tilefni af 20 ára afmælinu var ákveðið að hanna nýtt merki fyrir Tröllaborg. Nýja merkið er í sömu grunnlitum og eldra merkið; gulu og grænu. Tröllaborg leggur áherslu á útivist, útikennslu og að læra í gegnum leikinn. Tréin í nýja merkinu eru táknræn fyrir útivistina og kastalinn táknrænn fyrir leikinn sem þau læra í gegnum um. Þröstur Magnússon hjá Myndun hannaði nýja merkið og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Tröllaborg voru færðar góðar afmælisgjafir. Hjónin í Stekkjarbóli færði Barnaborg gítar, gítartösku og vegghengi fyrir gítarinn að gjöf. Ungmennafélagið Hjalti færði Brúsabæ veglega peningagjöf. Foreldrafélag leik- og grunnskólans á Hólum færði Brúsabær sömuleiðis veglega peningagjöf, blómvönd og konfekt. Rektor Háskólans á Hólum færði Tröllaborg bókargjöf um tæknitröll og íseldfjöll. Anna Árnína fyrrverandi leikskólastjóri færði báðum deildum Tröllaborgar fallegt blóm í tilefni af afmælinu. Við þökkum kærlega fyrir allar góðu gjafirnar sem okkur bárust.

Á Hólum var sýning á ýmsum munum og myndum frá gamalli tíð. Þegar tækifæri gefst væri gaman að taka saman sögu Tröllaborgar á öllum starfsstöðvunum þremur því leikskólar voru í upphafi stofnaðir og reknir af foreldrum í nærsamfélaginu fyrir hartnær fjörtíu árum síðan. 

Sömuleiðis þökkum öllum þeim sem komu í afmælið, leikskólabörnunum fyrir glæsilega myndlistarsýningu og starfsfólki fyrir glæsilegar veitingar og aukahendur til að gera afmælishátíðina eins skemmtilega og raun bar vitni.

Bestu afmæliskveðjur frá öllum í Tröllaborg 

 


Svæði

Leikskólinn Tröllaborg  |  Sími: Hólar 453 5760/Hofsós 453 7333  |  Netfang: trollaborg@skagafjordur.is