Vinátta

Við erum Vináttu leikskóli

Verkefnið byggir á fjórum grunngildum:

  • Umburðarlyndi: Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og koma fram við alla af virðingu.
  • Virðing: Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og virða mismunandi hátterni annarra.
  • Umhyggja: Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
  • Hugrekki: Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Með verkefninu er gert ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi og þau verði samofin öllu starfi og samskiptum í leikskólasamfélaginu. Allir eru þátttakendur í verkefninu, börn, foreldrar þeirra og starfsmenn leikskólans.

Nuddstundir

Nudd er góð leið til að efla tengsl barna og vináttu. Talið er að við stríðum ekki þeim sem við nuddum. Markmiðið með nuddinu er að:

  • að nudda bakið á einfaldan og vingjarnlegan hátt.
  • að öll börn upplifi að þau séu hluti af hópnum og viðurkennd.
  • að styrkja börnin í að leiðbeina og finna að farið sé eftir því sem þau segja.
  • að efla líkamsvitund og sjálfstraust barnanna.
  • að auka samskipti og umburðarlyndi hópsins.

Börnin sitja tvö og tvö saman og skiptast á að nudda bakið á hvort öðru. Kennarinn les nuddsögu og sá sem fær nudd slakar á, lokar augunum og hlustar meðan hann nýtur nuddsins. Kennarinn les söguna upphátt og sýnir nuddhreyfingar samtímis. Þegar nuddinu lýkur takast nuddfélagarnir í hendur og segja "takk fyrir nuddið" og "takk fyrir að mega nudda á þér bakið". Sömu tvö börnin nudda hvort annað reglulega í um það bil einn mánuð og svo er skipt um félaga. Þannig ná börnin að nudda flesta eða alla á deildinni á einu ári.

 

Svæði

Leikskólinn Tröllaborg  |  Sími: Hólar 453 5760/Hofsós 453 7333  |  Netfang: trollaborg@skagafjordur.is