SMT-skólafærni

SMT-skólafærni er hegðunarmótandi verkfæri fyrir skóla. Markmiðið með notkun þess er að skapa góðan skólabrag. Það er gert með því að leggja áherslu á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun með því að kenna félagsfærni. Áhersla er lögð á að gefa jákvæðri hegðun gaum og samræma viðbrögð starfsfólks við óæskilegri hegðun. SMT-skólafærni byggir á hugmyndafræði PMT-foreldrafærni. Barnaverndarstofa heldur utan um SMT-skólafærni.

SMT-skólafærni byggist á að:

  • gefa skýr fyrirmæli til að auka samstarfsvilja barnanna
  • hafa skýrar reglur,útskýra og æfa þær með börnunum
  • nota hvatningu í ríku mæli til að beina athygli að jákvæðri hegðun
  • stöðva óæskilega hegðun með mildum og sanngjörnum aðferðum
  • samræma viðbrögð starfsfólks við óæskilegri hegðun.

Í Leikskólanum Tröllaborg er unnið með eftirfarandi reglur:

  • að fara eftir fyrirmælum
  • að hafa hendur og fætur hjá sér
  • að nota inniröddina
  • að vera á sínu svæði
  • að þvo hendur

Nánari skilgreiningar á reglunum eru hér. Á hverju hausti er sett fram áætlun um hvernig reglurnar eru kenndar á skólaárinu.

Innlögn reglna

Þegar reglur eru kenndar, fara tveir kennarar í það saman. Kennarar kenna börnunum regluna með því að sýna hana rétt - rangt - rétt. Börnin fá svo tækifæri til að prófa gera regluna og gera hana þá alltaf rétt. Þau gera regluna aldrei rangt. Kennarar nota svo hvert tækifæri til að kenna og minna á reglurnar á hverju svæði í leikskólanum skv. kennsluáætlun hvers árs.

Hrós

Hvatning og hrós er notað til að kenna og ýta undir jákvæða hegðun. Hvatning hefur mest áhrif ef henni er beitt strax í kjölfar æskilegrar hegðunar og styrkt í sessi með hrósi. Sjálfstraust barna helst í hendur við þá hvatningu sem þau fá þegar þau sýna æskilega hegðun. Hrósað er fyrir það sem þau gera vel og rétt. 

Einvera 

Óæskilega hegðun þarf að draga úr eða stöðva með því að setja skýr mörk með mildum og sanngjörnum hætti. Afleiðingar eru í samræmi við hegðun og aldur barnsins. Við minniháttar hegðunarfrávik er rætt við barnið þ.e. farið yfir regluna og gefið val. Þegar barnið sýnir rétta hegðun er því hrósað fyrir það. Ef óæskileg hegðun endurtekur sig er barn tekið úr aðstæðum (með starfsmanni)  í stutta stund til að það fái tækifæri til að jafna sig. Eftir það fer barnið aftur í leik. Tími í einveru fer eftir aldri barna þ.e. 3 mínútur fyrir 3 ára o.s.frv. 

Lausnateymi

Við Tröllaborg er starfandi Lausnateymi fyrir kennara vegna nemenda með  hegðunar- og samskiptaörðugleika. Í teyminu eiga sæti skólastjóri og deildarstjórar. Hlutverk teymisins er að vera ráðgefandi aðili við kennara vegna  samskipta- og hegðunarerfiðleika nemenda. 

Svæði

Leikskólinn Tröllaborg  |  Sími: Hólar 453 5760/Hofsós 453 7333  |  Netfang: trollaborg@skagafjordur.is