Náms- og kynnisferð til Helsinki

Fjögurra daga fræðsluferð leik- og grunnskólans austan Vatna er nýlokið. Alls fóru 39 manns ásamt 8 manna hópi frá Hríseyjarskóla til Helsinki, Espoo og Vantaa í Finnlandi. Grunnskólinn Ruusutorpan og leikskólinn Leppavaara í Espoo voru heimsóttir en þeir vinna eftir hugmynda fræði Montessori. Mikil samvinna er á milli skólanna en þeir eru starfræktir sem sjálfstæðar einingar þó þeir séu undir sama þaki. Við fengum að fylgjast með börnum að leik og vera inn í tónlistartíma.

Í Vantaa skiptist hópurinn í tvennt og fór annar hópurinn í útiskólann Vantaan Luontokoulu en hann er í miklu samstarfi við grunnskólann á svæðinu og býður upp á fjölbreytta náttúrufræðslu. Hinn hópurinn fór í Lastenkulttuurikeskus Pyykitupa sem er menningarhús barna en þar er unnið með list, þema og viðburði í samstarfi við leik- og grunnskóla á svæðinu. 

Fræðsluerindin sem skólarnir fengu voru staðsett í miðbæ Helsinki. Fyrri fræðslan sem við fengum var um hugmyndafræði See the good en hún er byggð á rannsóknum á kennslufræðum og snýr að því að efla kennara í að koma til móts við þarfir nemenda sinna á einstaklingsgrunni svo nemendur öðlist trú á eigin getu, auki sjálfstraust sitt og þrautseigju til náms. Skagafjörður er að stíga sín fyrstu skref í að nýta verkfæri See the good hugmyndafræðinnar. Það er því mikill hagur fyrir leikskólann Tröllaborg og Grunnskólann austan Vatna að fá fræðslu um verkefnið. 

Seinna fræðsluerindið var í Háskólanum í Helsinki og fengum við kynningu á Graphogame lestrarleiknum sem nýlega var þýddur á íslensku og hefur hann verið notaður til að þjálfa börn (frá 4 ára aldri) að byrja lesa. Við fengum fleiri kynningar á sprotaverkefnum tengdum skólastarfi. 

Ferðin gekk í alla staði mjög vel og kom hópurinn reynslunni ríkari til baka. 


Svæði

Leikskólinn Tröllaborg  |  Sími: Hólar 453 5760/Hofsós 453 7333  |  Netfang: trollaborg@skagafjordur.is