Jólafréttir

Tröllaborg er komin í jólabúning og ýmislegt gert í tilefni jólanna. Í næstu viku hvílum við hefðbundið hópastarf og höfum jólakósýheit í staðinn. Litlu jólin verða á sínum stað með jólamat og léttum jóladansleik en með breyttu sniði.

Vegna Covid 19 sjáum við okkur ekki fært um að bjóða foreldrum/forráðamönnum á jólaballið líkt og árin á undan og vonum að þetta verði í eina skiptið sem sú staða kemur upp.

Ný reglugerð um sóttvarnir í skólastarfi gildir frá og með 10. desember til og með 12. janúar 2021 og verður leikskólastarfið með sama sniði og áður. Við leggjum áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir, grímuskyldu á foreldra/forráðamenn og aðra er í leikskólann koma (t.d. frá sérfræðiþjónustunni).  Nálægðar- og fjöldatakmarkanir ná ekki til barna á leikskólaaldri, engin grímuskylda er á starfsfólki inni á deild með leikskólabörnum né starfsfólks á útisvæði leikskólans en starfsfólk má ekki vera fleiri en 10 í hverju rými og mega fara á milli hópa. Í janúar byrja börn í aðlögun og skal aðlögun skipulögð þannig að foreldrar þurfi ekki að nota hreinlætis- né mataraðstöðu í leikskólabyggingunni, gæta að 2 m nálægðarmörkun milli sín og starfsfólks, noti andlitsgrímu og aðeins eitt foreldri fylgi barni í aðlögun og skal það vera sama foreldrið allt aðlögunartímabilið.

Síðasti dagurinn í leikskólanum fyrir jólafrí er þriðjudagurinn 22. desember og minnum á að mánudaginn 4. janúar er starfsdagur.

Tröllaborg þakkar foreldrum/forráðamönnum sem og starfsfólki kærlega fyrir einstakt umburðarlyndi, jákvæðni og sveiganleika á þessum fordæmalausum tímum þar sem allt samfélagið hefur þurft að aðlaga sig á ótrúlegan hátt að óvættinum Covid 19. Þið eigið öll þakkir skilið fyrir að láta allt ganga upp.


Svæði

Leikskólinn Tröllaborg  |  Sími: Hólar 453 5760/Hofsós 453 7333  |  Netfang: trollaborg@skagafjordur.is