Blær kom á degi leikskólans

Á Degi leikskólans sem var 6. febrúar, fengum við í Tröllaborg skemmtilega heimsókn, bæði sýnilega og ósýnilega.

Á Hólum kom Keli staðarhaldari í Háskólanum til okkar með stórann kassa. Þegar hann var á leiðinni frá Sauðárkróki flaug flugvél yfir bílinn hans og þá datt kassinn ofan á bílinn og meira að segja beyglaði bílinn.

Á Hofsósi heyrðist bankað á hurðina en þegar farið var til dyra var enginn sjáanlegur en á tröppunum lá stór kassi. Börnunum fannst trúlegast að jólasveinn hafi komið með hann en ekki viljað láta sjá sig af því að jólin eru búin.

Á kössunum var kort af Íslandi og búið að merkja inn á kortið hvar leikskólinn Tröllaborg væri.

Í hvorum kassa var bangsi sem heitir Blær og var hann með poka á bakinu. Í pokanum voru litlir bangsar og gaf hann hverju barni einn bangsa sem þau mega eiga. Litlu bangsarnir eru geymdir í leikskólanum og geta börnin alltaf tekið hann og knúsað þegar þau vilja.

Blær sem kom í Hofsós kemur alla leið frá Ástralíu en Blær sem kom á Hóla kemur frá Danmörku og ætla þeir að hjálpa okkur við að var góð og tillitssöm við hvert annað.

Bangsinn Blær er hluti af vinaverkefni sem er námsefni sem við keyptum hjá Barnaheill sem heitir Vinátta og er forvarnarverkefni gegn einelti. Verkefnið var þróað og mótað af Mary Fonden og Red Barnet – Save the Children í Danmörku og nefnist á dönsku Fri for mobberi. Verkefnið var tekið í notkun í Danmörku árið 2007 og sýna kannanir að einelti í leikskólum sem nota efnið hefur minnkað til muna. Forvarnaverkefnið byggir á að því að eineltið sé á ábyrgð hinna fullorðnu sem umgangast börnin daglega og hafa tækifæri til þess að fyrirbyggja einelti og ber í raun skylda til þess.

Verkefnið byggir á fjórum grunngildum:

Umburðarlyndi: Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og koma fram við alla af virðingu.

Virðing: Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og virða mismunandi hátterni annarra.

Umhyggja: Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki: Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Með verkefninu er gert ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi og þau verði samofin öllu starfi og samskiptum í leikskólasamfélaginu. Allir eru þátttakendur í verkefninu, börn, foreldrar þeirra og starfsmenn leikskólans.

 Keli kemur með kassannbörnin opna kassannBlær mættur á svæðið


Svæði

Leikskólinn Tröllaborg  |  Sími: Hólar 453 5760/Hofsós 453 7333  |  Netfang: trollaborg@skagafjordur.is